Það er ljóst að prófkjör Sjálfstæðisflokksins verða miklu meira spennandi en nokkurn hafði órað fyrir.
Í Kraganum virðist Ragnar Önundarson, einn þeirra manna sem sannarlega vöruðu við bankahruninu, ætla að fara gegn sjálfum formanni flokksins, Ragnar fer fram með þeim orðum að í formanninum sé „sameining stjórnmála- og viðskiptaarma Engeyjarættarinnar“ og hún sé ekki trúverðug.
Þar sækist líka eftir 1.-6. sæti Vilhjálmur Bjarnason, hinn landskunni gagnrýnandi óráðsíunnar sem hér hefur tíðkast í fjármálalífinu.
Á Akureyri ætlar Tryggvi Þór Herbertsson að reyna að fella Kristján Þór Júlíusson úr fyrsta sætinu. Tryggvi er sagður njóta stuðning Valhallar – ef honum tekst að ná fyrsta sætinu verður hann eitt af ráðherraefnum flokksins. Ef þetta tekst ekki á hann varla séns í ráðherradóm. Kristján er annar varaformaður flokksins – og það verður varla auðvelt að velta honum úr sæti.
Það stefnir í harðan slag víðar – til dæmis í Reykjavík. Þar vilja Hanna Birna Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson bæði fá fyrsta sætið, þarna er einfaldlega tekist á um hver sé númer tvö í flokknum. Illugi er mjög handgenginn Bjarna Benediktssyni, hann ætlar honum stórt hlutverk í ríkisstjórn.
Í samanburði við þetta virðast framboðsmálin heldur dauf hjá Samfylkingunni, til dæmis eru einungis átta manns sem sækjast eftir sæti á lista hennar í Norðausturkjördæmi og ekki nema fimm í Norðvesturkjördæmi. Hjá Samfylkingunni setur það svip sinn á baráttuna að þingmönnum flokksins mun örugglega fækka í næstu kosningum öfugt við það sem er hjá Sjálfstæðisflokknum.