Íslendingar fóru í NATÓ, EFTA og EES án þess að þjóðin væri spurð.
Stjórnendur landsins á tímum þessara samninga komust hjá því að halda þjóðaratkvæðagreiðslur. Um fullveldisframsalið þarf ekki að efast – með EES samningnum er löggjafarvald selt úr landi í stórum stíl. Það má færa gild rök fyrir því að hann sé viðvarandi stjórnarskrárbrot – menn hafa bara ekki almennilega nennt að pæla í því að ráði.
En gegn þessu reyndist núverandi stjórnarskrá engin vörn.
Í tillögum Stjórnlagaráðs er kveðið á um að ekki sé hægt að gera samninga af þessu tagi án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ljóst að hefði slík stjórnarskrá verið í gildi hefði ekki verið hægt að komast hjá því að þjóðin kysi um ofantalda samninga.
Eins og staðan er nú yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB aðild aðeins ráðgefandi. En samkvæmt tillögum Stjórnlagaráðs væri hún stjórnarskrárbundin og bindandi – þjóðin hefði alltaf síðasta orðið.
Manni heyrist reyndar að ítrustu kröfur séu orðnar á þá leið að banna verði helst allt fullveldisframsal. Það er skrítin latína. Við lifum í heimi þar sem hagsmunir þjóða skarast á alla kanta. Til að auðvelda samskiptin – og jafnvel koma í veg fyrir stríð eða önnur átök – eru gerðir alþjóðlegir samningar, mynduð bandalög og þjóðir undirgangast alþjóðlegar reglur.
Þetta er vandmeðfarið hugtak, fullveldi – og nú er talað eins og það þurfi skilyrðislaust að verja í öllum tilvikum. Það höfum við þó ekki gert í sögu okkar, sbr. NATÓ, EFTA og EES.
Það getur engin þjóð verið heima hjá sér og lokað öllum dyrum – ekki frekar en fólk vill almennt lifa einsetulífi lengst úti á einhverjum hólma.