fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Samfylkingin og hin afar veika sjálfsmynd

Egill Helgason
Mánudaginn 8. október 2012 16:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þau eru mjög umhugsunarverð orð Árna Páls Árnasonar að Samfylkingin hafi tapað sjálfsmynd sinni í samstarfinu við Vinstri græna.

Er það svo víst? Er ekki líklegra að Samfylkingin hafi alltaf haft mjög veika sjálfsmynd – og á köflum hérumbil enga.

Samfylkingunni var steypt saman úr fjórum flokkum og flokksbrotum, Alþýðuflokknum, sirka helmingi Alþýðubandalagsins, meirihluta Kvennalistans og því sem eftir var af Þjóðvaka.

Fyrst um sinn átti flokkurinn erfitt með að fóta sig – Steingrímur J. Sigfússon stofnaði Vinstri græna, eftir á að hyggja virðist það  jafnvel hafa verið misskilningur, Steingrímur hefði plumað sig ágætlega í Samfylkingunni. Kannski hefði saga hennar verið önnur ef hann hefði sigrað í síðasta formannskjörinu í Alþýðubandalaginu en ekki Margrét Frímannsdóttir?

Fyrstu ár Samfylkingarinnar fóru saman við mektarár Tonys Blair í Bretlandi. Margir úr flokknum voru hugfangnir af Blair, fögnuðu sigrum hans eins og væru þeirra eigin. Blair staðsetti sig á miðjunni í mörgum efnum, og hvað varðaði viðskipta- og bankamál, var hann talsvert til hægri við miðju. Það er dálítið sérkennilegt að margt Samfylkingarfólk sem hreifst mest af Blair var komið langt utan af vinstri væng, það hafði verið í Alþýðubandalaginu – ég hef stundum nefnt þennan hóp „hraðleiðina til hægri“.

Samfylkingin náði því að verða stór. Hún varð mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn sem stofnendur hennar vildu skapa. Að því leyti tókst stofnun hennar ágætlega. Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. En tilverugrundvöllurinn hefur haldið áfram að vera ótraustur. Sósíaldemókrataflokkarnir á Norðurlöndunum byggja á áratugalangri hefð, tengslum við verkalýðshreyfinguna, virkni flokksmanna, setu í fjölmörgum ríkisstjórnum.

Samfylkingin hefur ekkert af þessu. Hún prófaði blairismann, settist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þar sem aðalmarkmiðið var að fá að vera með í að útdeila gæðum útrásartímans – á þeim tíma var fyrirfannst gagnrýni á fjármálakerfið varla í Samfylkingunni.

Hún prófaði að vera umhverfisverndarflokkur í samkeppni við Vinstri græna þegar mótmælin við Kárahnjúkavirkun risu sem hæst – en í raun er stór hluti flokksmanna hallur undir stóriðju.

Innan flokksins urðu mjög áberandi það sem kallast ídentitets-stjórnmál þar sem er lögð áhersla á alls kyns réttindabaráttu, kvenna, innflytjenda, samkynheigðra. Þetta er mjög skiljanlegt í samhengi tíðarandans, en um leið hafa áherslur af þessu tagi gert vinstri flokka millistéttarlegri og menntamannalegri – láglaunafólk og það sem eitt sinn kallaðist verkalýður hefur leitað annað. Sums staðar alla leið í faðminn á öfgaflokkum til hægri, eins og dæmin sýna í Evrópu. Einn þeirra sem hefur fjallað mikið um þetta er nýmarxistinn Slavoj Zizek, sem hefur tvívegis verið gestur í sjónvarpi hjá mér.

Eftir hrun varð Jóhanna Sigurðardóttir formaður flokksins. Það var í raun búið að skrifa hana út úr handritinu, menn voru hættir að tala við hana eða spyrja hana álits, hún var eins og eftirlegukind frá gömlum tíma. Allt í einu varð aftur eftirspurn eftir Jóhönnu. Það var ekki bara sökum þess að hún var talin óspillt af hrunadansi áranna áður, heldur líka vegna þess að hún minnti mest á norrænu kratana – hjá henni var fólgin glóð gömlu jafnaðarstefnunnar.

Þetta virkaði líka. Þrátt fyrir að hafa verið í hrunstjórninni vann Samfylkingin undir forystu Jóhönnu kosningasigur vorið 2009. Síðan þá hefur sjálfsmynd flokksins verið ansi mikið bundin við persónu formannsins, sá sem tekur við – nú þykja Árni Páll og Katrín Júlíusdóttir líklegust – þarf að skálda upp í ansi stóra eyðu. Það mun ekki síst reyna á nýjan formann ef – eins og líklegt er – verður ekkert af ESB-aðildinni sem flokkurinn hefur svo lengi stefnt að. Þetta gæti verið orðinn pólitískur veruleiki á Íslandi innan hálfs árs.

Hvernig ætlar flokkurinn að taka pólitíska forystu á Íslandi sem er utan ESB – og ennþá að baksa með krónuna?

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!