fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Að endurskrifa söguna

Egill Helgason
Sunnudaginn 7. október 2012 14:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er merkilegt að fylgjast með því þegar menn reyna að endurskrifa söguna – og enn fremur þar sem fyrrum þjóðardagblað er notað til þess, blað sem taldi sig áður vera útvörð góðra siða og velsæmis.

Í Reykjavíkurbréfi helgarinnar má lesa:

„Hvert er tilefnið [til að endurskrifa stjórnarskrá]? Að viðskiptabankarnir þrír kollsigldu sig haustið áður? Þarf að umbylta stjórnarskránni þess vegna? Er tilefnið virkilega að óvinsælustu ríkisstjórn þjóðarinnar hafi skolað inn á þing í kjölfar múgárása á þinghúsið og fleiri stofnanir, sem minnstu munaði að næðu að yfirbuga fámennt en ótrúlega hugað lögreglulið í herlausu landi? Þekkt er að einstakir þingmenn reyndu að auðvelda skríl að koma aftan að lögreglunni og þingmenn sem síðar urðu ráðherrar ömuðust við því að lögreglumenn fengju að kasta mæði stundarkorn inni í þinghúsbyggingunum eftir ofurmannlega áraun. Íslenskir fræðimenn hafa enn ekki haft uppburði í sér til að fara í gegnum þennan þátt óeirða sem kallaðar eru hinu dúkkulega nafni »búsáhaldabyltingin«. Enn hefur ekki verið upplýst hverjir skipulögðu óeirðirnar eða fjármögnuðu þær. Vísbendingarnar eru þó margar og flest ber þar að sama brunni. Og það segir vissulega sína sögu að aldrei var árásunum beint fáeina metra frá Austurvelli, upp að Túngötu 6, eins og minnt var á í þjóðkunnri vísu. Og þekkt er að sjálft Ríkisútvarp landsins, sem sjálftökulið þar innanhúss kallar RÚV, hafði sig mjög í frammi þessa dagana og var atbeini þess allur með miklum ólíkindum. Einhvern tíma verður allt þetta mál opinbert.“

Menn geta haft hvaða afstöðu sem er til stjórnarskrárbreytinga, en tvennt er þarna mjög athyglisvert.

Efnahagshrunið 2008 heitir nú að þrír viðskiptabankar hafi „kollsiglt“ sig.

Það er ekki minnst á hrun hlutabréfamarkaðar úr 9000 í 300, öll smáu og stóru fyrirtækin sem fóru á hausinn eða voru yfirtekin, gjaldþrot Seðlabankans, sparisjóðakerfið sem féll nánast eins og það lagði sig, hrun gjaldmiðilsins um 50-60 prósent, launin sem skruppu saman, stökkbreyttar skuldir, ólögleg gengislán sem voru veitt á löngu tímabili, eftirlitsstofnanir sem brugðust algjörlega, spillinguna sem blasti við,  stjórnvöld sem flutu sofandi að feigðarósi – ríki sem þurfti að leita á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Svo má lengi telja – rannsóknarskýrsla Alþingis er meira en 2000 blaðsíður.

Hitt er hvernig er talað um fólkið sem fór út á götur og torg eftir hrunið?

Nú er það orðið múgur.

Flest var þetta fólk einfaldlega hissa – efnahagshrunið var eins og reiðarslag, fólk missti einfaldlega trú á hlutum sem það hafði haldið að væru í sæmilegu lagi. Öll orðræða á löngu tímabili virkað tóm og fölsk, þetta var ekki síður hrun hugmynda en hrun hagkerfis. Hvernig ætli sé í mótmælunum í Aþenu og Madrid – ætli sé bara múgur þar?

Í þriðja lagi er talað um eitthvað sem verði opinbert seinna. Hvað skyldi það nú vera? Að þetta var bara allt einhver misskilningur – og við hefðum ekki einu sinni átt að þurfa að flytja fréttir af þessu?

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!