Það er dálítið skrítin hugmynd að hægt sé að tala niður íslensku krónuna.
Hún er reyrð í gjaldeyrishöft. Hér heima kostar evran sirka 160 krónur – erlendis, á þeim fáu stöðum þar sem er yfirleitt hægt að versla með krónur – er hægt að fá 250 krónur fyrir evruna eða jafnvel meira.
Stærstu atvinnugreinar landsins nota erlenda gjaldmiðla – þetta á við um sjávarútveginn, stóriðjuna og nokkru leyti ferðamennskuna.
Hér heima höfum við svo tvær tegundir af krónu.
Annars vegar flotkrónuna sem sveiflast til og frá, fór í fáranlegar hæðir fyrir hrun en sökk djúpt eftir það – nú er hún í höftum en sveiflast samt – og hins vegar verðtryggðu krónuna sem er óhemju traust og gefur ekkert eftir þó allt hrynji kringum hans.
Stærstur hluti húsnæðislána landsmanna, stærstu skuldbindingar þeirra, eru í þessum gjaldmiðli.
En svo er náttúrlega hægt að lifa í óraunverulegum heimi þar sem krónan féll aldrei – heldur var hún barasta töluð í kaf.