Nú erum við komin að þeim stað í íslenskum stjórnmálum að farið er að tala um að flokkar gangi „opnir“ til kosninga.
Þetta þýðir að við, kjósendur, fáum ekkert að vita um hvað þeir ætlast fyrir eftir kosningarnar.
Nú er einkum einblínt á Samfylkinguna. Hún gæti orðið í lykilstöðu eftir kosningar. Jóhanna útilokaði nánast að hún myndi vinna með Sjálfstæðisflokknum, formannsefnið Árni Páll segist geta unnið með hverjum sem er. Orð hans fá nokkuð góðar undirtektir meðal Samfylkingarfólks.
Nú má svosem vera – og það er fremur líklegt – að eini möguleikinn á tveggja flokka ríkisstjórn eftir kosningar verði stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Stjórnarmyndun gæti reynst erfið – og þá geta flokkar stokkið frá stefnumálum sínum vinstri hægri.
Þetta er ekki óhagganlegt kerfi, þótt ýmsir láti þannig. Á Norðurlöndunum er vitað fyrir kosningar hvaða flokkar ætla að starfa saman – kjósendur hafa því skýra mynd af því hvaða ríkisstjórnir eru í boði.
Nú er í uppsiglingu formannskjör í Samfylkingunni – það er talað um að flokkurinn hafi færst til vinstri. Það má vera. En því má þá ekki gleyma að Samfylkingin er sósíal-demókrataflokkur – vinstriflokkur. Víðast í Evrópu starfa slíkir flokkar í ríkisstjórnum með flokkum sem eru enn lengra til vinstri, þannig er það í Noregi og Danmörku. Blairisminn hefur sungið sitt síðasta, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar endaði með ósköpum.
Ef nýr formaður færði Samfylkinguna til hægri væri það þó í raun út á svæði sem er giska autt í pólitíkinni hér. Þetta er svæðið þar sem frjálslyndir flokkar Evrópu starfa – sá hugmyndastraumur sem kallast liberal. Á Íslandi eru frjálslyndir eins og lítil brot í Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki – og að minna leyti Framsókn – en flestir eru landlausir í pólitík.
En er ekki jafn líklegt að hægri sveifla í Samfylkingu myndi flæma burt fleiri kjósendur en bættust við, það er ekki einfalt mál að reyna að taka yfir miðjuna og vera í leiðinni trúr sósíal-demókratíunni – við höfum nýleg dæmi sem sýna það.