Náttúrufræðistofnun Íslands telur að kanínur hafi ekki þegnrétt í íslenskri náttúru – og því ber líklega að útrýma þeim.
Það er reyndar spurning hvar eigi að draga mörkin.
Við landnám var refurinn eina spendýrið í íslenskri náttúru. Rebbi var kóngurinn.
Svo fjölgaði tegundunum, faunan er reynda ekki mjög fjölbreytt.
Við höfum húsdýrin hunda, ketti, kýr, kindur, hross, geitur og svín – úti í náttúrunni eru rottur og mýs, hreindýr, minkur sem er nokkuð nýlegt aðskotadýr og nú kanínur – fyrir utan rebba.
Á sama tíma hefur gróðurfar í landinu tekið miklum breytingum. Fyrst er sagt að landið hafi verið viði vaxið frá fjalli til fjöru, svo var skóginum eytt, en á síðustu öld hafa bæst við ótal tegundir sem voru ekki til hérna, bæði tré og blóm.
Umdeildastar eru greni – lengi var deilt um hvort það ætti heima á Íslandi – og svo lúpínan, en margt fólk getur misst sig í ógurlegan ham þegar á hana er minnst. Sumir vilja útrýma henni, en vegna hennar eru sandar sunnanlands víða grónir – það hefur gerst á stuttum tíma. Bændur hafa meira að segja ræktað korn í jarðvegi sem lúpínan hefur skapað.
Á síðustu árum höfum við séð fuglategundir og skordýr sem voru ekki til hér áður. Við getum víst ekki gert mikið í því.
Spurningin er hvar við eigum að draga mörkin – er til einhver útgáfa af Íslandi sem við eigum fyrir alla muni að halda í, og hvað megum við ganga langt í að uppfæra?
Mynd þessi er af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, ljósmyndarinn er Trausti Baldursson. Myndin sýnir tvær framandi tegundir í náttúru Íslands, kanínu og alaskalúpínu. Á vefnum kemur fram að það sé opinbert mat að kanínan sé framandi tegund sem beri að útrýma í náttúru Íslands ellegar hafa á henni stranga stjórn.