Ég er einn þeirra sem legg orð í belg á ráðstefnu sem fer fram í Öskju í dag. Ráðstefnan ber yfirskriftina Evrópa fórnarlambanna: Kommúnisminn í sögulegu ljósi.
Tveir gestir á ráðstefnunni vekja einkum athygli mína, annar er franski sagnfræðingurinn Stéphane Courtois, en hann var aðalritstjóri Svörtu bókarinnar um kommúnismann sem kom út í Frakklandi 1997 og vakti miklar deilur.
Höfundar bókarinnar reyna að gera nokkuð nákvæma grein fyrir glæpum kommúnismans – og freista þess að kasta tölu á hversu mörg mannslíf hann kostaði. Það er náttúrlega ekki einfalt reikningsdæmi, en talan er í kringum 100 milljónir manna.
Annar gestur er ástralski rithöfundurinn Anna Funder. Hún er höfundur frægrar bókar sem nefnist Stasiland. Bókin fjallar um lífið í Austur-Þýskalandi á tíma kommúnismans þar – sem stundum var nefndur í háði marxismus-senilismus.
Núorðið finnst manni Þýska alþýðulýðveldið vera hjákátlegt lítið ríki, en auðvitað var það dauðans alvara fyrir íbúana sem bjuggu undir stanslausu eftirliti og áreiti frá öryggislögreglunni Stasi.
Mitt hlutverk á þessari ráðstefnu er örlítið, en þessir tveir höfundar eru ágætur félagsskapur enda las ég báðar ofantaldar bækur stuttu eftir að þær komu út.
Stéphane Courtois.