Ég skrifaði fyrr í dag grein um framboðsmál hjá Sjálfstæðisflokknum og sagði að þar væru nokkuð mörg sæti í boði fyrir þá sem hafa áhuga á að hasla sér völl í pólítik.
Sömu sögu er ekki að segja um Samfylkinguna, þar er þröngt setinn bekkurinn.
Samfylkingunni tókst að vinna kosningasigur fyrir þremur og hálfu ári, þrátt fyrir að hafa setið í síðustu ríkisstjórn fyrir hrun. Það var að miklu leyti að þakka því snilldarbragði að tefla fram Jóhönnu Sigurðardóttur sem flokksformanni – á þeim tíma var hún ennþá Heilög Jóhanna.
Það hefur fallið á geislabaug Jóhönnu síðan þá, en samt er ekkert annað formannsefni sjáanlegt innan Samfylkingarinnar. Hún getur varla annað en setið áfram. Sterkast væri reyndar fyrir Samfylkinguna ef kæmi mótframboð gegn henni á landsfundi, en hún sigraði.
Fylgi Samfylkingarinnar mun dragast saman í kosningunum í apríl næstkomandi. Flokkurinn bíður kannski ekki afhroð, en þingmönnunum fækkar.
En nú ber svo við innan Samfylkingarinnar að hérumbil enginn sem situr á þingi fyrir flokkinn ætlar að hætta af sjálfsdáðum. Þess verður heldur ekki vart að nýtt fólk sé að bera víurnar í þingmennsku á hans vegum.
Þannig að það er líklegast að sama og engin endurnýjun verði hjá Samfylkingunni, það verður sama fólkið – bara aðeins færra.
Rauður bolti er merki Samfylkingarinnar.