Íslandsstofa og átakið Inspired by Iceland standa fyrir samkeppni um nýtt nafn á Ísland.
Margt hefur heppnast vel hjá Inspired by Iceland, eins og til dæmis í fyrra þegar forseti Íslands bauð ferðamönnum í pönnukökur.
Ekki stendur þó til að breyta nafni landsins endanlega. Nafnið Ísland er notað bæði í gildandi stjórnarskrá og í nýrri tillögu að stjórnarskrá – það væri dálítið vesen að breyta því.
En það eru svosem til ýmis nöfn sem hafa verið notuð og eiga við Íslandi – í einni eða annarri mynd:
Skerið, Frón, Klakinn, Hólminn, Ísafold, Fjalladrottning – og jafnvel er hugsanlegt að nafnið Thule eigi við Ísland, íslenska myndin er þá Týli. Svo er til enska heitið Niceland, ég held það hafi fyrst verið notað á ensk/íslenska hljómsveit á níunda áratugnum.
Niceland er reyndar ansi gott. En kannski hafa menn betri hugmyndir?