Heimspekingurinn Stefán Snævarr skrifar hugvekju í framhaldi af grein sem ég setti inn á vefinn hjá mér í gær og nefndi Gráthlægileg mótmæli.
Grein Stefáns nefnist Óeirðir, íslam og rétthugsun. Hún hefst með svofelldum orðum:
„Miðausturlönd loga í óeirðum en íslenskir álitsgjafar þegja velflestir enda sjá þeir ekkert annað en hinn íslenska nafla, miðdepil alheimsins. Frá honum liggur mikill naflastrengur beint til seðlaveskjanna.
Egill Helgason er undantekningin sem sannar regluna, hann skrifar snöfurlega ádrepu um mótmælunum gegn sorpkvikmynd um spámanninn Múhammeð.
Egill leyfði sér að fordæma hinn morðóða skríl sem myrti m.a. sendiherra Bandaríkjanna Libíu, mann sem hafði staðið við hlið uppreisnarmanna í landinu.
Rétthugsendur ráku upp org á ummælusíðu Egils og tóku að afsaka morðæðið með þeim „rökum“ að það hafi eiginlega ekkert með kvikmyndina að gera heldur sé skiljanlegt andóf gegn hinni illu amerísku utanríkispólitík.
En af hverju taka þessir sjálfskipuðu vinir hinna kúguðu ekki mótmælendur alvarlega? Þeir segjast mótmæla myndinni en rétthugsendur telja sig vita betur, að þeir séu eiginlega alls ekki að mótmæla þessari sorpkvikmynd!“