Það er dálítið skemmtilegt að Guðmundur, útgerðarmaður í Brimi, skuli orða það svo að fiskurinn í sjónum eigi sjálfan sig. Jú, hann syndir sjálfsagt um frjáls og telur sig vera engum gefinn.
En svo er það nú þannig sumum er heimilt að sækja fiskinn, öðrum ekki. Sumum er meira að segja heimilt að selja, leigja eða veðsetja óveiddan fisk í sjó – og um það veit þorskurinn ábyggilega ekki neitt. Hann veit ekki að hann hefur verið notaður sem veð í lánaviðskiptum við erlenda banka, jafnvel í alls konar skuldavafninga.
Og þótt eitthvað af þessu sé afskrifað, þá kannski til að létta undir með Guðmundi í Brimi, þá veit þorskurinn ekkert um það heldur.
Það er líka skemmtilegt að Guðmundur skuli nefna Bæjarútgerð Reykjavíkur og hvernig hún var rekin með tapi. Þar er nefnilega saga sem ekki hefur verið nógsamlega rifjuð upp, um einkavinavæðingu Bæjarútgerðarinnar.
Björgvin Guðmundsson, fyrrverandi borgarfulltrúi, skrifaði grein um þetta í Morgunblaðið 2004 – þar byggði hann á athugunum Hilmars Viktorssonar viðskiptafræðings eins og kemur fram í greininni:
„Árið 1985 samþykkti borgarstjórnarmeirihluti sjálfstæðismanna í Reykjavík undir forustu Davíðs Oddssonar, þáverandi borgarstjóra, að sameina Bæjarútgerð Reykjavíkur Ísbirninum hf. Hið nýja fyrirtæki hlaut nafnið Grandi. Í framhaldi af því seldi Reykjavíkurborg hlutabréf sín í nýja hlutafélaginu. Þar með hafði borgin lagt niður Bæjarútgerð Reykjavíkur, sem Bjarni Benediktsson og Jón Axel Pétursson höfðu haft forustu um að stofna. Eignarhlutföllin í Granda urðu að lokum þau, að Reykjavíkurborg átti 77,5% í félaginu, Ísbjörninn átti 15% og Olís 7,5%. Upphaflega var ráðgert að Ísbjörninn mundi eiga miklu stærri hlut í nýja fyrirtækinu en vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Ísbjarnarins gat það ekki orðið. Ísbjörninn hafði átt við mikla fjárhagserfiðleika og taprekstur að stríða um skeið og nam uppsafnað tap félagsins um 100 millj. kr. Töldu margir að Reykjavíkurborg hefði verið að bjarga Ísbirninum frá gjaldþroti með sameiningunni við BÚR og stofnun Granda. Í grein í DV árið 1985 lét Hilmar Viktorsson viðskiptafræðingur þessa skoðun í ljós og færði rök fyrir henni. Við sameiningu BÚR og Ísbjarnarins létti Reykjavíkurborg 213 millj. kr. skuld af Granda (Framreiknuð var sú upphæð orðin 319 millj. kr. við söluna á bréfum borgarinnar 1988). Þetta voru lán vegna nýsmíði togara BÚR. Borgarsjóður tók þessa skuld að sér. Það hvíldu því tiltölulega litlar skuldir á hinu nýja fyrirtæki, er það tók til starfa. Hlutur Reykjavíkurborgar í Granda var seldur árið 1988 á kr. 500 millj. Draga má umræddar 319 millj. frá þeirri fjárhæð. Auk þess lét borgin Granda fá hlutabréf í Esso, sem Grandi seldi á 75 millj., svo og hlutinn í Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunni, sem var metinn á 84 m.kr. Ef þessar fjárhæðir báðar eru einnig dregnar frá söluverðinu á hlut Reykjavíkurborgar í Granda verða aðeins eftir 22 mill. kr. af þeim 500 millj., sem fengust fyrir hlut borgarinnar í fyrirtækinu! Telja má að kvótaverðmæti togara BÚR, sem borgin lagði inn í Granda, sé í dag 4-5 milljarðar. (Togararnir Bjarni Benediktsson og Ingólfur Arnarson ekki taldir með en þeir voru seldir áður). Borgin fékk sem sagt 22 millj. á verðlagi ársins 1988 fyrir togara með 4-5 milljarða kvótaverðmæti í dag!
— — —
Rök sjálfstæðismanna fyrir sölu BÚR voru einkum þau að taprekstur væri á fyrirtækinu og borgin þyrfti að greiða með því. Allur gangur var þó á rekstri BÚR. Þannig var góður hagnaður af rekstri fyrirtækisins 1980. Yfirleitt var afkoma frystihússins góð en afkoma togaranna erfið. Var það svipað og hjá öðrum togara – og fiskvinnslufyrirtækjum í landinu á þessum tíma. Afkoma togara batnaði síðar, fyrst hjá frystitogurunum en síðar einnig hjá öðrum togurum. Togarar fóru að skila hagnaði. Sama þróun hefði orðið hjá BÚR, ef rekstri fyrirtækisins hefði verið haldið áfram. Það var búið að kaupa ný og fullkomin skip til útgerðarinnar og bæta aðstöðu fiskvinnslunnar. Aðstaða var því góð til sóknar. En þá var einkaaðilum afhent fyrirtækið á silfurfati og borgin látin sitja eftir með stóran hluta skuldanna!“