Hörðustu andstæðingar ESB innan Vinstri grænna eru móðgaðir út í Katrínu Jakobsdóttur varaformann vegna ræðu sem hún hélt á flokksfundi á föstudag.
Katrín var þó ekki að gera annað en að segja að flokkar geti ekki byggt á einsmálsfólki.
Í kjósendahópi Vinstri grænna er fólk sem er á móti Evrópusambandinu, með Evrópusambandinu og svo eru þeir fjölmörgu sem eru óvissir.
Þeir sem eru mest á móti ESB innan flokksins – hinir „sönnu“ ESB andstæðingar – telja að allt hverfist um þetta eina mál. Það var þetta sem Katrín benti á með fremur hógværum hætti.
En það er alls ekki víst að kjósendur séu á sama máli. Þeir eru að hugsa um margt annað en ESB. Aðildarviðræðum verður ekki lokið fyrr en löngu eftir kosningar – nema þá að þær verði stöðvaðar nú í vetur eða strax eftir kosningarnar. Hingað til hefur ekki verið þingmeirihluti fyrir því.
En Vinstri grænir eiga val í aðdraganda kosninganna – þeir geta byggt kosningabaráttu sína á því að vera flokkurinn sem leiddi Ísland út úr kreppu – án þess að hafa átt nokkurn þátt í að skapa hana. En þeir geta líka eytt vetrinum í að engjast vegna ESB. Snöggur viðsnúningur í því máli á síðustu metrum ríkisstjórnarinnar verður flokknum þó varla til framdráttar.