Það er hægt að færa þau rök fyrir því að Katrín Júlíusdóttir komi aftur inn í ríkisstjórn að hún hafi horfið burt í fæðingarorlof og eigi því rétt á því að fá vinnuna aftur.
En ráðuneyti er ekki venjulegt starf – það er ekki eins og hvert annað djobb sem fólk getur átt tilkall til. Við höfum reyndar hið óheppilega orð ráðherra, en í raun á það að felast í þjónustu við almenning og almennahagsmuni.
Katrín getur snúið aftur sem þingmaður eftir orlof sitt, það verður ekki af henni tekið.
Ráðherraembættið er flóknara dæmi. Katrín snýr ekki einu sinni aftur í sitt fyrra ráðuneyti, iðnaðarráðuneytið, heldur tekur við fjármálaráðuneytinu. Í goggunarröðinni er það oft talið mikilvægasta ráðuneytið, næst á eftir forsætisráðuneytinu. Vitað er að það tekur nokkurn tíma að ná tökum á slíku embætti, það gerist ekki á fáum vikum.
Oddný Harðardóttir virðist hafa spjarað sig ágætlega, hún var reyndar búin að vera formaður fjárlaganefndar áður, en kannski verður Katrín búin að ná þessu áður en kosið verður í vor.