Þessar myndir fann ég á Facebook-síðu sem nefnist 101Reykjavík. Það eru mun fleiri ljósmyndir þar, ég vona að mér fyrirgefist að hafa tekið þessar að láni. Þetta er svona í framhaldi af færslunni sem ég setti inn í morgun, en hún nefndist Reykjavík 1974.
Svona leit Grjótaþorpið út 1978. Þetta er þorpið eins og ég man það þegar ég var strákur. Ég var í gamla Vesturbæjarskólanum við Öldugötu og nokkur bekkjarsystkini mín úr Grjótaþorpi. Þar þótti ekki fínt að búa. Ég held það hafi verið útlendingar sem hingað komu sem sáu sjarmann við Grjótaþorpið, ekki síst nokkrir Frakkar sem komu upp úr 1970 og settust sumir að.
Á þessum árum biðu menn í raun bara eftir því að gömlu húsin yrðu rifin eða að þau brynnu. Ég man eftir mörgum eldsvoðum frá því ég var strákur, maður sá gömlu húsin fuðra upp – viðbrögðin hjá borgaryfirvöldum voru nánast eins og léttir.
Hugmyndin var líka að malbika yfir þetta allt og reisa nútímaleg stórhýsi, eins og þetta. Þarna er á ferðinni hugmynd að ráðhúsi Reykjavíkur við enda Tjarnarinnar.
Hér er Steindórsplanið, þar sem leigubílastöð Steindórs var, árið 1981. Mér er sagt að Kolbrún Bergþórsdóttir hafi um tíma svarað í símann hjá Steindóri, en Steindór bílakóngur var afi Geirs Haarde. Lengra frá er svo Hallærisplanið svonefnt þar sem unglingar söfnuðust mikið saman á kvöldin – og þótti til vandræða. Austurstrætið skildi að, það mætti Aðalstræti við Morgunblaðshúsið. Seinna var strætinu lokað í vesturendann og búið til hið forljóta Ingólfstorg.
Einu sinni voru alls konar verslanir í Miðbænum. Þar sem núna er veitingahúsið Sólon var málningavöruverslun, spölkorn ofar á Laugavegi var húsgagnaverslun Kristjáns Siggeirssonar en þaðan eru myndirnar hér að neðan. Það er í gangi furðuleg umræða þar sem látið er eins og það sé tilræði við verslun á Laugavegi að bannað sé að aka smáhluta götunnar part úr sumri. Hefur þó ekki sést fleira fólk á Laugavegi í manna minnum eða meiri glaðværð.
En Laugavegurinn er eins og aðrar miðbæjargötur í Evrópu – þar þrífast helst veitingahús og búðir sem með einhverjum hætti höfða til ferðamanna. Verslunarhættir breyttust þegar opnuðu stórar verslanamiðstöðvar og verslanahverfi utan miðborga. Þeirri þróun verður ekki snúið við í bráð – helsta ráðið er í raun að fjölga íbúum í Miðborginni og í kringum hana. Það sést líka á íbúðaverði að þar vill fólk búa núorðið.
Einu sinni var meira að segja Hagkaupsbúð í Miðbænum, nánar tiltekið í Lækjargötu. Þarna voru seldir hinir frægu Hagkaupssloppar. Húsið var því miður flutt upp í Árbæjarsafn – það er löngu kominn tími á að flytja húsin þar aftur niður í bæ. Í staðinn kom skelfilega ljótt ferlíki. Utan við Hagkaup var strætóstopp, eins og sjá má, fólk bíður þarna á bekkjum. Myndin er frá 1981 – nei, það er ekki lengra síðan! Ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir Rýabúðinni. Kannski getur einhver hjálpað til með það?
Það er gaman að þessum myndum. Þær eru frá tíma í sögu borgarinnar sem ekki hefur verið mikið rifjaður upp. Það er of stutt síðan, menn hafa horft lengra aftur í söguna. En nú er svo langt liðið að myndir frá þessum tíma fara að öðlast framandleika.
Sjálfum finnst mér undarlegt að sjá þessar breytingar, ég byrjaði að þvælast um í Miðbænum þegar ég var smástrákur, man að ég var að reyna að selja blöð þegar ég var átta ára. Nokkrum árum síðar geystist ég um bæinn sem sendill á reiðhjóli, svo var ég í skóla hérna, rétt hjá þar sem ég bý núna, ég man að ég eyddi alltof miklum tíma í að vera skotinn í stelpu sem tók strætó, það var einmitt á biðstöðinni sem er á myndinni hér fyrir ofan.