Ég hef lengi haldið því fram að óhugsandi sé á þessum tímapunkti að Ísland gangi í ESB. Það er einfaldlega raunsætt mat. Ég held það séu orðin tvö ár síðan ég sagði þetta í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina TF1 – stærstu sjónvarpsstöð þar í landi.
Þetta byggir einfaldlega á köldu mati, en fylgjendur ESB hafa haft horn í síðu minni vegna þessa. Þeir sem eru andsnúnir Evrópusambandinu hafa lengi reynt að útmála mig sem ESB-sinna.
En staðan er einfaldlega sú að ESB virkar einstaklega óaðlaðandi á þessum tímapunkti. Þar skiptir mestu máli að við vitum ekki í hvaða átt Evrópusambandið er að þróast. Á slíkum tíma er ómögulegt að „selja“ Íslendingum ESB aðild. Þetta leit aðeins öðruvísi út þegar umsóknin var send sumarið 2009. Þá var allt í kalda koli á Íslandi – en Evrópa virtist í nokkuð góðum málum.
En þessi staða kann að breytast. Margir halda því fram að efnahagsbatinn á Íslandi sé ósjálfbær – að við séum í raun að magna upp efnahagsbólu í skjóli gjaldeyrishafta. Á sama tíma er efnahagsástandið í raun ágætt í mörgum löndum Evrópusambandsins, þótt allt sé í rugli á Grikklandi og Spáni og Ítalía standi tæpt.
Mergurinn málsins er þó sá að það er ekki hægt að reka á sama tíma áróður þess efnis að Ísland sé að upplifa stórkostlegan efnahagsbata og fyrir því að þjóðin þurfi að ganga í ESB. Þetta er of flókið – gengur ekki upp í hugum stórs hluta kjósenda.