Ég hef oft komið á Ísafjörð gegnum árin, ég hef alltaf notið þess að koma vestur, en nú finnst mér eins og að bærinn hafi tekið miklum framförum.
Hvarvetna hafa sprottið upp nýir og skemmtilegir staðir. Ég man þá tíð að varla var hægt að fá ætan bita á Ísafirði. Einu sinni var Pizza 67 aðalveitingastaðurinn. Nú getur maður farið á nýja og frjálslega staði eins og Húsið og Bræðraborg. Á síðarnefnda staðnum er besta kaffið í bænum, en kippkorn frá er ágætur thailenskur staður sem nefnist Thai Koon.
Tjöruhúsið er sennilega besta fiskveitingahús á Íslandi, það er einstök upplifun að koma þangað, og á Vagninum á Flateyri fengum við sérlega góða fisksúpu og hrefnusteik.
Ferðaþjónustufyrirtæki eins og Borea og Vesturferðir bjóða upp á skemmtilegar ferðir á svæðinu – fólk sem er með mér í för fór í sjóstangarveiði í gær og veiddi fimmtíu fiska. Við erum að hugsa um að taka bát út á Hesteyri í dag.
Vestfirzka verzlunin er skemmtileg búð í Aðalstræti sem selur aðeins vörur frá Vestfjörðum eða tengdar þeim.
Svo verður að nefna gistinguna sem við fundum hér, á efri hæð Faktorshússins sem er frá 1788. Hér eru lokrekkjur sem eru svo mjúkar að það er eins og svífa á skýi. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þetta séu fallegasta hótelherbergi á Íslandi. Á neðri hæðinni er svo mjög aðlaðandi veitingastaður sem við eigum eftir að prófa.
Mér sýnist að ungt fólk sé mestanpart bak við þennan uppgang í mannlífinu á Ísafirði. Eins og ég segi, það hefur alltaf verið gaman að koma hingað – en nú er það enn betra.
Það er margt að skoða fyrir vestan, þetta er tilraun til að taka ljósmynd ofan af Bolafjalli niður í hyldýpið fyrir neðan. Eins gott að maður datt ekki.