Ólafur Ragnar Grímsson sagði að handbolti væri kjarninn í þjóðarsál Íslendinga.
En hvar er kjarninn eftir tapið gegn Ungverjum í dag?
Það er reyndar þannig með íþróttir að bæði töp og sigrar gleymast býsna hratt.
Feel good áhrif íþrótta eru nokkuð ofmetin. Íþróttir munu ekki breyta því ef eitthvað er í ólagi í einkalífi manns eða í þjóðfélaginu. Bretar vakna upp við það á mánudaginn að líf þeirra er alveg eins og fyrr, efnahagurinn er rusli, en Grikkir eru enn að borga skuldir vegna Ólympíuleikanna 2004.
Ef íþróttasigrar væru ávísun á hamingju, hefðu allir verið afar sælir í Þýska alþýðulýðveldinu, mesta sportidjótaríki sem til hefur verið. Aldrei hefur neitt ríki unnið jafnmikið af íþróttamedalíum.
Ég man að ég lenti í nokkrum stælum út af þessu í útvarpsþættinum Vikulokunum árið 2008, eftir að íslenska handboltaliðið hafði unnið silfur á Ólympíuleikunum í Peking.
Þá höfðu bæði forseti og menntamálaráðherra stormað til Kína til að taka þátt í dýrðinni. Það voru síðar hengdar fálkaorður á allt handboltalandsliðið. Stjórmálamönnum finnst gott að nugga sér utan í sigurvegara í íþróttum.
Á þessum tíma voru ýmsir að halda því fram að þetta myndi þýða viðsnúning í örðugleikum sem blöstu við Íslendingum. Þjóðin myndi fá trú á sjálfa sig. Ég sagðist ekki trúaður á að þetta hefði nein áhrif – ég man að öðrum gestum sem voru í þættinum fannst það ósmekklegt.
Sex vikum síðar hrundi íslenska hagkerfið.