En það er rétt sem sagt er – það er út í hött að ætlast til þess að karlar séu klæddir í kjól og hvítt við þessa athöfn. Fæstir karlmenn eiga slík föt lengur, enda engin ástæða til – ekki nema maður syngi í karlakór. Kórfélagar klæða sig stundum svona fínt upp. Svo er líka beðið um heiðursmerki – það hefur víst tíðkast hjá hinu opinbera að veita slíkt fólki sem gerir ekki annað en að mæta í vinnuna, svona til að það verði gjaldgengt í veislur.
Það verður athyglisvert að heyra ræðu Ólafs Ragnars – verður maður ekki að gera ráð fyrir að þetta sé síðasta embættistakan hans?!
Það hlýtur að standa upp á forsetann að bera smyrsl á sárin eftir forsetakosningarnar. Það er langt til seilst að ætlast til að forseti sé „sameiningartákn“ – en hann getur samt ekki leyft sér að vera einungis forseti þeirra sem eru til að mynda á móti Evrópusambandinu eða á móti breytingum á stjórnarskránni.