Það er vænisýki á háu stigi – eða þá stækur áróður – að halda því fram að einhver ríkisstjórn Íslands myndi sniðganga úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild.
Þetta myndi jafngilda valdaráni. Ríkisstjórn sem reyndi þetta myndi þurfa aðstoð vopnaðra sveita til að halda völdum.
Það er reyndar ekki líklegt heldur að Evrópusambandið myndi vilja fá slíkt ríki inn í sambandið.
Það er ekki hægt að líkja þessu við inngönguna í EES. Það hefur alltaf verið vitað að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðildina. Engum dettur í raun annað í hug.
Á tíma EES samningsins var hins vegar í lengstu lög reynt að forðast að nefna þjóðaratkvæðagreiðslu, forystumenn ríkisstjórnarinnar sem þá sat, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson, kærðu sig ekki um hana og gáfu aldrei neitt færi á henni.
Þetta er ólíkt Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur margítrekað að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB og að farið verði eftir niðurstöðum hennar.
Þegar – og ef – að þessu kemur verður ekki séð að forseti Íslands muni hafa neitt hlutverk.