Ólafur Ragnar Grímsson virðist ætla að fljóta inn á Bessastaði á öldufaldi einnar stærstu grasrótarhreyfingar sem hefur verið til á Íslandi, andstöðunnar við Icesave-samningana. Það er meginskýringin á því allt stefnir í endurkjör hans. Í hugum margra er Ólafur leiðtoginn sem stóð með þjóðinni þegar stjórnmálamennirnir voru tilbúnir að svíkja.
Menn geta svo deilt um hvort þetta sé svona einfalt – það eru ýmsir fletir á Icesave-málinu – en Ólafur Ragnar birtist hér heima og í erlendum fjölmiðlum sem stjórnmálamaður sem var tilbúinn að segja beint út að almenningur ætti ekki að borga skuldir fjármálastofnana.
Margir kvarta undan því að ekki sé gert nóg af því að rifja upp framgöngu Ólafs Ragnars á útrásartímanum. Einhvern tíma sagði ég að Ólafur hefði verið nánast eins og aðalhugmyndafræðingur útrásarinnar – mikið af orðfæri hennar var frá honum komið. Sumar ræðurnar er skelfilegt að lesa núorðið. En stór hluti kjósenda virðist ekki ætla að láta þetta á sig fá – þeir muna vel hvernig þetta var, en eru búnir að taka Ólaf Ragnar í sátt. Upprifjanir á þessu munu ekki breyta niðurstöðum kosninganna.
Upplausnin í Evrópu og á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hjálpar líka Ólafi. Evrópusambandið – sem hann er andsnúinn – er í upplausn. Þjóðirnar við Miðjarðarhaf sökkva dýpra í atvinnuleysi og örvinlan. Tilfinningin er almennt magnleysi gagnvart fjármálakerfinu – sem Íslendingar storkuðu á sinn hátt.
Stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar hættir til að gera lítið úr þessu, en erlendis er mikið talað um þjóðina sem sagði þó eitt eða tvö stór „nei.“
Aðrir frambjóðendur hafa eiginlega ekki átt neitt svar við kosningabaráttu Ólafs – þessum meginþræði sem er lýst hér að ofan – kosningarnar eru að leysast upp í smáskítlegt og geðvonskulegt nagg milli stuðningsmanna. Það eru ennþá eftir tíu dagar til kosninga – og spurning hvort frambjóðendunum tekst að slá einhvern nýjan tón á þeim tíma. Það virðist reyndar ekki mjög líklegt.