Ólafur Ragnar Grímsson virðist vera kominn með öruggt forskot í forsetakosningunum. Sigurinn blasir við honum. Það er bara spurning hvað hann verður stór.
Margir gerðu því skóna að fylgi hans væri fast í rétt rúmum þriðjungi þjóðarinnar, en það virðist ekki ætla að reynast rétt. Ef kosningarnar fara eins og síðasta skoðanakönnun Fréttablaðsins bendir til hefur Ólafur bætt við sig verulegu fylgi í kosningabaráttunni.
Ólafur er klókur stjórnmálamaður. Hann kann að leika á kjósendahópinn eins og hljóðfæri – segir hluti sem falla í kramið, gegn Icesave og ESB, um þjóðarviljann og óvinsælt þing – og um leið hefur honum tekist að tengja helsta keppinaut sinn, Þóru Arnórsdóttur, við ríkisstjórnina, Samfylkinguna og ESB.
Ólafur fer um landið í kosningabaráttu sinni – mér er sagt að hann hitti mörg hundruð manns á dag.
Það verður ekki séð að Þóra, sem flaug hátt í skoðanakönnunum fyrstu vikurnar, eigi neitt svar við þessu. Málflutningur hennar hefur verið óskýr og hikandi – kannski er ekki von á öðru, hún er í hlutverki sem hún þekkir í raun ekki. Stuðningsmenn hennar virðast hafa haldið að það væri nóg að sýna hana til að sigra í kosningunum. Þeir ofmátu Þóru og vanmátu Ólaf.
Það er ólíklegt að nokkuð breytist úr þessu. Frambjóðendur eru búnir að fara með rullurnar sínar í sjónvarpi. Það er varla von á miklum tíðindum úr þeirri átt. Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur segir í Fréttablaðinu að Þóra þurfi að breyta kosningabaráttu sinni, en það er spurning hvernig það ætti að gerast. Hún gæti reynt að fara af meiri hörku í Ólaf Ragnar, en óvíst er að það myndi skila árangri. Gæti jafnvel haft þveröfug áhrif.