Það er ljóst eftir sjónvarpsumræður kvöldsins að forsetakosningarnar snúast fyrst og fremst um að vera með eða á móti Ólafi Ragnari Grímssyni.
Það er eiginlega synd – því okkur hefði ekki veitt af því að fá aðeins áhugaverðari kosningar.
Þarna spilar inn í að allir mótframbjóðendur forsetans virðast frekar veikir.
Það hefði verið gott að fá frambjóðendur með skarpari og áhugaverðari sýn á stjórnmál og íslenskt samfélag, þá hefðu kosningarnar kannski getað þróast öðruvísi, en fyrst svo er ekki eru þær dæmdar til að snúast um Ólaf Ragnar.
Í vetur voru inni í myndinni hugsanlegir frambjóðendur sem hefðu getað opnað kosningarnar upp á gátt – eins og til dæmis Páll Skúlason og Stefán Jón Hafstein. Stefán setti fram ögrandi hugmyndir um forsetaembættið í greinum sem hann ritaði.
En eins og það er núna virkar þetta lokað, loftlaust og staglkennt.