Í gær fór ég í einn frægasta þjóðgarð í heimi, Banff þjóðgarðinn í Albertafylki í Kanada. Þetta er í Klettafjöllunum, náttúrufegurðin er einstök, fjöllin bera nafn með rentu, þau eru feikilega grýtt, barrskógur teygir sig langt upp í hlíðarnar, tindarnir eru snævi þaktir, inn á milli eru fjallavötn – ísa hefur enn ekki almennilega leyst af sumum þeirra.
Banff er elsti og vinsælasti þjóðgarður Kanada og ágangur ferðamanna er mikill. Það koma hátt í fimm milljón gestir á ári.
Fyrir utan náttúrufegurðina var eitt sem vakti athygli – maður borgar fyrir að komast inn í Banff. Fyrir einstakling er aðgangseyririnn 9,80 Kanadadollarar, en fjölskyldur borga 19,60. Það er einnig hægt að kaupa árskort sem kosta 136,40 dollara á fjölskyldu.
Ég ímynda mér ekki að gestum þyki neitt athugavert við þetta fyrirkomulag. En þetta virðist ekki mega á íslenskum ferðamannastöðum þar sem eru að skapast vandræði vegna átroðnings og aukins fjölda gesta.
Moraine vatn í Banff þjóðgarðinum. Í gær var það reyndar ísi lagt að hluta til, enda er vatnið 1884 metra yfir sjávarmáli.