Forsetakosningarnar eru að taka á sig mynd og það er ljóst að sumum er brugðið.
Það er reyndar mjög skrítið þegar beðið er um að umræðan verði eins og var til dæmis árið 1996. Þá var hún eimitt öll í skötulíki, menn tipluðu kringum málin – það er miklu betra að frambjóðendur tali hreint út um vilja sinn, stefnu og áform.
Sérstaklega eftir að málskotsréttur forseta hefur verið virkjaður – og allir frambjóðendur segjast ætla að beita honum. Þá verðum við að vita meira um frambjóðendurnar en áður – það gegnir öðru máli ef við værum bara að kjósa einhvers konar táknmynd eins og áður var.
En svo er annað – maður sér ekki betur en að sums staðar sé komið upp hreint hatur á Ólafi Ragnari Grímssyni. Umræða sem maður sér á bloggsíðum og á Facebook bendir beinlínis til þess.
En í bréfinu sem hér er vitnað til er meðal annars sagt að Ólafur Ragnar hafi gerst svo grófur að tala um „mótframbjóðanda“ – já, einmitt, það er alveg svakalegt. Í gamla daga hétu þetta víst „meðframbjóðendur“ – eða var það?