Ein sérkennilegasta þjóðsaga á Íslandi er að Jóhannes kaupmaður sem eitt sinn var kenndur við Bónus hafi verið sérstakur vildarvinur alþýðu. Að hann hafi gert meira fyrir fólkið í landinu en hérumbil allir aðrir.
Jóhannes rak Bónus og verðið var lágt miðað við annað á Íslandi – því verður ekki neitað.
En staðreyndin er sú að þetta var alþjóðleg þróun sem stóð yfir í nokkra áratugi og endaði með því að verslun færðist á æ færri hendur, litlum kaupmönnum var útrýmt og stórar verslanakeðjur náðu kverkataki á framleiðendum og birgjum.
Það er sá veruleiki sem blasir við okkur núna hvarvetna á Vesturlöndum. Jóhannes var helsti fulltrúi þessarar tegundar af kapítalisma á Íslandi. Þetta varð reyndar mjög háþróað hjá þeim feðgum Jóhannesi og Jóni Ásgeiri – því þeir áttu verslanir sem seldu sömu vöruna bæði á lágu verði og á mjög háu verði. Þannig var þeim í lófa lagið að vinna gegn samkeppni.
Nú segist Jóhannes ætla að koma aftur með ensku verslanakeðjuna Iceland. Honum hafi verið bolað burt á sínum tíma – sú fullyrðing mun varla vekja annað en hlátur.
En það er merkilegt að sjá tvo risa í evrópskri verslun koma inn á Íslandsmarkað – Bauhaus kemur með hvelli og hleypir öllu upp á byggingavörumarkaði, og við sjáum hvað setur með Iceland.