Það liggur við að vanti skoðanakannanir til að rýna í. Enn er til dæmis óvíst hvernig átökin i Sjálfstæðisflokknum um helgina hafa haft áhrif á fylgi hans.
Það þokaðist ögn upp í skoðanakönnun sem MMR birti í gær, en þó ekkert að ráði – og bilið milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks jókst enn. Framsókn er komin í 32,7, en Sjálfstæðisflokkurinn er tíu prósentustigum neðar með 22,9.
Sjálfstæðisflokkurinn er löngu búinn að gefa upp á bátinn hugmyndir um að ná sínu gullna fylgi sem er 36 prósent og yfir. Nú er keppnin að fá meira fylgi en Framsókn.
Samkvæmt MMR könnuninni erf ylgi stjórnarflokkanna komið í algjöran botn. Samfylkingin er með 10,4 prósent en VG 6,7. Það er þriðjungur þess sem flokkarnir fengu í kosningunum 2009.
Píratar sigla hins vegar seglum þöndum, þrátt fyrir erfiða umræðu um einstaka frambjóðendur, með heil 9 prósent.
En það vantar fleiri skoðanakannanir til að sýna hver þróun fylgisins er. Samkvæmt þessu er Framsókn ekkert að gefa eftir og Sjálfstæðisflokkur ekki að bæta neinu við sig að ráði. Sumir segja þó að hann hafi fundið sinn botn og sé að spyrna sér upp á við. Kannanir sem birtast á morgun eða fimmtudag svara þessu væntanlega.