Íslendingar horfa yfirleitt ekki mjög vítt yfir heiminn í stjórnmálaumræðu – enda er að sumu leyti þægilegra að busla bara í sama litla pollinum.
Það er til dæmis lítt til umræðu í þessum kosningum að eitt framboðið, sem þó fær mjög mikla athygli, er angi af alþjóðlegri hreyfingu sem er til í mörgum löndum.
Þetta eru Píratarnir. Þeir sækja hugmyndir sínar og vinnuaðferðir til fyrirmynda sem hafa verið hvað sterkastar í Svíþjóð og Þýskalandi.
Píratahreyfingin byrjaði í Svíþjóð, í kringum deilur um höfundarétt, en nú eru til Pírataflokkar í að minnsta kosti fjörutíu löndum. Í sextán löndum hafa þeir tekið þátt í þingkosningum, samkvæmt Wikipedia, nú bætist Ísland við á þennan lista.
Árangurinn í þingkosningum hefur verið rýr, en flokkurinn hefur fagnað sigrum í fylkiskosningum í Þýskalandi, einkum og sérílagi í Berlín 2011 þar sem flokkurinn fékk 8,9 prósent og í Evrópuþingskosningum í Svíþjóð 2009, þar sem fylgið var 7,13 prósent.
Margir væntu þess að Píratarnir myndu setja strik í reikninginn í þingkosningunum sem verða haldnar í Þýskalandi í september næstkomandi. Flokkurinn hefur náð inn á þrjú fylkisþing auk Berlínar og var um tíma með allt að 10 prósent í skoðanakönnunum, þá virtust þeir vera að keppa við Græningja og Frjálslynda um að verða þriðji stærsti flokkur Þýskalands.
Svo virðist þó ekki ætla að verða.
Óeining í röðum Pírata og óljós stefnumál hafa valdið því að fylgið hefur hríðminnkað. Hreyfingin er vissulega byggð upp á annan hátt en hefðbundnir stjórnmálaflokkar, en það er ekki alltaf ávísun á sátt og samlyndi að útkljá mál á netinu.
Það var áfall fyrir hreyfinguna þegar hún fékk ekki nema 2 prósent í fylkiskosningum í Neðra -Saxlandi í janúar. Í skoðanakönnunum er flokkurinn kominn niður í 2,5-3 prósent og möguleikarnir á að rjúfa 5 prósenta múrinn sem þarf til að koma þingmönnum að hafa farið hríðminnkandi. Bjartsýnin innan hreyfingarinnar hefur dvínað – líka í Svíþjóð þar sem hún er upprunnin.
En kosningasigur Pírata á Íslandi gæti náttúrlega eflt móralinn aftur.