Er ekki ljóst að formaður stjórnmálaflokks sem segist íhuga afsögn rétt fyrir kosningar, hlýtur að láta verða af því að segja af sér?
Annars væri hann varla að ljá máls á þessu? Með þessu er hann að gefa vangaveltum byr undir vængi, þær verða varla stöðvaðar úr þessu.
Annar möguleiki er auðvitað sá að hann sé að óska eftir stuðningsyfirlýsingum frá flokksmönnum.
En þær eru kannski ekkert sérstaklega mikið á leiðinni, að minnsta kosti ekki frá öllum. Hennar er varla að vænta frá Kjartani og ekki heldur frá frambjóðendum sem óttast að missa þingsæti sem þeir töldu að væru örugg.
Það verður að segjast eins og er að Bjarni Benediktsson er býsna grátt leikinn. Viðskiptablaðið birtir tvær skoðanakannanir sem grafa undan honum og eru örlagavaldar á pólitískum ferli hans.
Önnur sýnir að Hanna Birna myndi tryggja flokknum meira fylgi en hann, hin sýnir að hann nýtur lítils trausts. Menn hjóta að spyrja hver sé uppruni þessara skoðanakannana – þótt Kjartan neiti.
Hitt er svo annað mál hvort Hanna Birna fiski betur en Bjarni. Það er vel hugsanlegt að sú atburðarás sem nú hefur verið sett af stað veiki flokkinn enn frekar. Hjaðningavíg innanflokks líta ekki vel út rétt fyrir kosningar. Á móti þessu virkar samstaðan í Framsóknarflokknum hreint aðdáunarverð.
Það væri líka mjög óvenjulegt að skipta um formann tveimur vikum áður en kosið er – og það stuttu eftir landsfund þar sem hann var endurkjörinn með miklum meirihluta. Bjarni fékk þar 79 prósent atkvæða.
Var landsfundurinn þá bara í tómu rugli?
Og nú bíða menn eftir því hvað Hanna Birna segir á morgun – lýsir hún yfir stuðningi við Bjarna eða….?
Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok febrúar. Hanna Birna var þá kosin varaformaður, en Bjarni vann sinn stærsta sigur í formannskjöri, fékk 79 prósent atkvæða.