Efni Kiljunnar í kvöld er mjög fjölbreytt.
Við fræðumst um nýútkomna sögu Alþýðusambands Íslands eftir Sumarliða R. Ísleifsson. Þetta er mikið verk, í tveimur bindum, ríkulega myndskreytt. Við einblínum á fyrsta bindið þar sem segir frá kjörum alþýðu á fyrri hluta síðustu aldar.
Bernd Ogrodnik og Kristín María Ingimarsdóttir segja frá afar fallegri barnabók sem er nýútkomin og byggir á brúðusýningu Bernds – þar er lagt út af þjóðsögunni frægu um Gilitrutt.
Við fjöllum um skáldsöguna Frjálsar hendur eftir Helga Ingólfsson. Þetta er gamansaga, háðsádeila, á líf í framhaldsskóla í nútímanum. Helgi er sjálfur menntaskólakennari auk þess að vera afkastamikill rithöfundur.
Við hittum ljóðskáldið Höllu Gunnarsdóttur á Arnarhóli og heyrum hverjar eru uppáhaldsbækur Sigurðar Arnarsonar, prests í Kópavogskirkju.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Búsáhaldabyltinguna eftir Stefán Gunnar Sveinsson og ljóðabókina Bjarg eftir Sigurlín Bjarney Gísladóttur.
Og Bragi er á sínum stað.