Það lítur út fyrir að síðasta stóra verk Jóhönnu Sigurðardóttur í embætti forsætisráðherra verði að fara til Kína að undirrita fríverslunarsamning.
Kínverjar taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum með pompi og prakt svo þessi heimsókn verður ábyggilega ævintýraleg.
En hún er líka táknræn.
Þarna er Jóhanna nefnilega að framfylgja utanríkisstefnu Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann er mestur kínavinur meðal íslenskra áhrifamanna og hefur löngum lagt áherslu á samskipti við ríki í Asíu. Hann er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu – og í raun virðist hann hafa lítinn áhuga á Evrópu.
Ólafur Ragnar hefur farið í margar heimsóknir til Kína.
Það er kaldhæðnislegt að það komi í hlut Jóhönnu að gera þennan fríverslunarsamning. Þetta er ekki beinlínis það sem var lagt upp með í upphafi stjórnartíðar hennar – þá var hugmyndin að enda kjörtímabilið með samningi við Evrópusambandið.
En fríverslunarsamningur smáþjóðar við fjölmennasta ríki heims – ríki sem hvorki er lýðræðis- né réttarríki – er ekkert smámál.
Megum við kannski bráðum fá að vita hvað er í þessum samningi?