Um fátt annað er rætt á þessum morgni en skoðanakönnun Fréttablaðsins. Þar vantar Framsóknarflokkinn aðeins einn þingmann til að fá hreinan meirihluta á Alþingi.
Á sama tíma birtist stórkemmtilegt viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson í Fréttatímanum undir yfirskriftinni Næsti forsætisráðherra?
Og jú, fátt virðist geta komið í veg fyrir að hann verði það.
Þetta er nokkuð óvenjulegur stjórnmálaferill. Sigmundur varð fyrst þekktur sem fréttamaður og spyrill í Kastljósi, vakti svo þjóðarathygli fyrir skoðanir sínar á skipulagsmálum, en var svo nánast kippt inn af götunni til að verða formaður Framsóknarflokksins.
Á fjórum árum hans í formannssæti er eiginlega þrennt sem stendur upp úr. Hann veitti minnihlutastjórn Samfylkingar og VG hlutleysi þegar ríkisstjórn Geirs Haarde féll snemma árs 2009. Fljótlega kólnaði þó á milli hans og Jóhönnu og Steingríms – má næstum segja að stríðsástand hafi ríkt þarna á milli á löngu tímabili.
Sigmundur var á móti Icesave-samningum og hann hefur alltaf talað fyrir því að færa niður skuldir fasteignakaupenda. Þar hefur ekki vantað staðfestuna.
Þetta er að skila sér núna og á sama tíma blasir við afar vandræðalegt fylgishrun flokkanna sem eitt sinn áttu að vera turnarnir í íslenskri pólitík, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
Samfylkingin gæti endað uppi sem smáflokkur, en ef fer sem horfir verður sá tími liðinn að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærsti stjórnmálaflokkur landsins.
Skoðanakönnun Fréttablaðsins frá því í morgun er aðeins á skjön við aðrar kannanir sem hafa birst undanfarið. Kannski stenst hún ekki – það er hugsanlegt – en önnur skýring gæti verið að svona mikil sveifla sé í átt til Framsóknarflokksins, þ.e. að fylgið fer að hreyfast þangað komi aðrir kjósendur á eftir. Nú eru kosningarnar algjörlega farnar að snúast um Framsókn og það hefur áhrif.
Þetta setur náttúrlega þrýsting á Framsóknarflokkinn. Allt stefnir í að hann leiði næstu ríkisstjórn. Og ef fylgið verður svona mikið verður ekki undan því vikist fyrir flokkinn að standa við kosningaloforðin. Þar verður tæpast nein útgönguleið.