Mikið er deilt í Bretlandi um breytingar á velferðarkerfinu.
Í grófustu útgáfunni segir að þarna séu ríkir yfirstéttarmenn að ráðast gegn fátæku fólki. Það væri miklu nær að taka peninga af bankamönnum – eða öllu því moldríka fólki sem flykkist til Lundúna og sest þar að.
George Osborne fjármálaráðherra hefur svarað fyrir sig og sagt að breytingarnar séu nauðsynlegar. Eitt af því sem hann heldur fram er að alltof mörgu fólki hafi verið komið fyrir á örorkubótum í velferðarkerfinu. „parkerað“ þar.
Það sem kemur á óvart í þessu er að Osborne kennir stjórn Margaret Thatcher, þess mikla átrúnaðargoðs, um þetta.
Hann segir að í tíð hennar hafi mikill fjöldi fólks verið færður af atvinnuleysisbótum yfir á örorkubætur – og að þetta hafi verið versta tegund af pólitískri skammsýni.
Það er auðvitað þekkt að þegar fólk er komið á örorkubætur er það talsvert fjarlægara vinnumarkaðnum en ef það er á atvinnuleysisbótum.
En á móti kemur að stjórnmálamenn eru þurfa sífellt að svara fyrir fjölda atvinnuleysingja, en yfirleitt er lítið rætt um fjölda bótaþega.