Það hefur ekki verið um það fjallað, en fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er í framboði fyrir Lýðræðisvaktina. Hefði kannski einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar.
Þetta er Katrín Fjeldsted sem skipar heiðurssætið hjá Lýðræðisvaktinni í Reykjavík norður.
Annars er ansi mikið af þekktu fólki í framboði hjá Lýðræðisvaktinni, má segja að í þeirri deild slái hún öðrum flokkum við.
Í Reykjavík norður má sjá tónlistarmanninn Egil Ólafsson, fjölmiðlakonuna Hildi Helgu Sigurðardóttur og kvikmyndaleikstjórann Lárus Ými Óskarsson.
Í Reykjavík suður eru til dæmis Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, Edda Björgvinsdóttir leikkona, Valgerður Matthíasdóttir fjölmiðlakona, Anna Kristine Magnúsdóttir blaðakona og Móeiður Júníusdóttir, söngkona og guðfræðingur.
Í Suðvesturkjördæmi er að finna blaðakonuna Guðrúnu Guðlaugsdóttur, leikarann Hinrik Ólafsson, Guðnýju Halldórsdóttur kvikmyndaleikstjóra og Guðmundu Elíasdóttur söngkönu.
Í Suðurkjördæmi eru svo tónlistarmennirnir Þórir Baldursson, Hjörtur Howser og Erlingur Björnsson, gítarleikari Hljóma.
Í Norðausturkjördæmi eru hvort á sínum enda listans hjónin Sigríður Stefánsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri, og Erlingur Sigurðarson, sem sat í Stjórnlagaráði.
Og í efsta sæti í Norðvesturkjördæmi er hinn öflugi Eyþór Jóvinsson sem meðal annars rekur Vestfirzku verzlunina á Ísafirði, þar er líka á lista Elínborg Halldórsdóttir myndlistarmaður, Ellý í Q4U.
En hvort það breytir einhverju að hafa svo þekkt fólk í sínum röðum, það er allsendis óvíst. En líklega keppa hinir flokkarnir sem eru að berjast við að ná upp í fimm prósenta múrinn ekki í þessari deild.