Myndin er tekin á athafnasvæði Eimskipafélagsins í Reykjavíkurhöfn 1964. Hún birtist á vefnum 101Reykjavík.
Á þessum tíma fóru vöruflutningar enn um gömlu höfnina. Þeir voru með gamla laginu, handaflið var notað eða kranar – þarna glittir í kolakranann sem stóð við höfnina frá 1927 til 1968 og var eitt helsta kennileitið í Reykjavík.
Fyrsti áfangi Sundahafnar var tekinn í notkun 1968 og eftir það hurfu vöruflutningarnir úr gömlu höfninni. Þá var líka að hefjast mikil bylting í vöruflutningum þegar gámar voru teknir í notkun. Núorðið geta menn varla hugsað sér flutninga án þeirra. Stór gámaskip plægja heimsins höf.
En við gömlu höfnina eru margar minningar. Þar var fjöldi verkamanna sem vann við uppskipun – og þar var helsta vígi verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Við ætlum að fjalla svolítið um þetta í Kiljunni á næstunni. Dagsbrúnarkarlar voru sérstakur hópur í samfélagi borgarinnar.
Gamla vöruhöfnin hefur verið hálf döpur lengi. Þar hefur reyndar risið tónlistarhúsið Harpa, en í gegnum svæðið liggur stór bílagata sem sker höfnina frá miðborginni. Hafnarbakkinn er stór, eyðilegur og alveg vannýttur; mikil girðing hefur verið reist utan um bakkann þar sem leggjast að skemmtiferðaskip. Það eru þó bara minni skipin sem komast þar fyrir.
Við þetta ástand verður varla unað lengi. Það eru ótal tækifæri á þessu svæði, en nú er það eins og eyðimörk.
Á móti kemur að fiskihöfnin stendur í blóma. Hún er sú athafnamesta á landinu – og er ein helsta gersemin í Reykjavík. Við hana hafa líka verið að spretta upp veitingastaðir og búðir – og það var snilldarhugmynd að gera hótel beint ofan í athafnasvæði gamla Slippsins. Samspilið milli nýja og gamla tímans þar er mjög skemmtilegt – með þeim hætti á einmitt að þróa þetta svæði.