Ýmislegt sérstætt hefur verið sagt um Geirfinns- og Guðmundarmál.
Frægt var þegar Ragnar Hall, sem var sérstakur saksóknari vegna mögulegrar endurupptöku málsins, sagði eftir að Hæstiréttur hafnaði beiðninni að „þetta hefðu ekki verið neinir kórdrengir sem hefðu verið sóttir í fermingarveislu“.
Meiningin var semsagt að sakborningarnir hefðu verið undirmálsfólk – eða kannski illþýði.
Svo var það Ólafur Jóhannesson sem var dómsmálaráðherra á árunum þegar málið var til rannsóknar. Hann hafði reyndar sjálfur orðið fyrir ómaklegum ásökunum vegna málsins og var máski viðkvæmur fyrir. En það er ljóst að dómsmálaráðherra á ekki að tala eins og hann gerði, þegar hann sagði daginn eftir að þýski lögreglumaðurinn Karl Schültz skýrði frá niðurstöðum lögreglurannsóknarinnar. Þetta var í febrúar 1977.
Málið var ekki komið til dómstóls, en Ólafur sagði að „martröð væri létt af þjóðinni“.
Á sama tíma birtist leiðari í Morgunblaðinu, sem þá var einstaklega áhrifamikill fjölmiðill. Þar sagði, í tilefni af endalokum lögreglurannsóknarinnar:
„…meginmáli skiptir nú að þetta mál, Geirfinnsmáið, sem hvílt hefur eins og mara á þjóðinni, er upplýst“.
Enn átti eftir að rétta í málinu og dæma.