Það eru ákveðnir hlutir sem borgir draga að sér.
Um daginn var til dæmis birt í blaði skýringamynd þar sem var sýnt að meirihluti listamannalauna færi til borgarinnar.
Kom svosem ekkert sérstaklega á óvart.
Listsköpun er starfsemi sem er fremur bundin við þéttbýli. Meira að segja á miðöldum var það svoleiðis. Reykholt Snorra Sturlusonar var þéttbýlt miðað við það sem var annars staðar á landinu. Ítalska endurreisnin, sem er álitin einhvers konar upphaf nútímans, varð í borgríkjum.
En það eru aðrar atvinnugreinar sem þrífast í borgarumhverfi – til dæmis lögfræðingar. Íslendingar hafa mun hærra hlutfall lögfræðinga en aðrar þjóðir og þeir safnast flestir saman í borgarumhverfinu.
Og svo eru það rónar, útigangsmenn og eiturfíklar.
Einhvern veginn sækja þeir sem lenda í slíku frekar í borgirnar en sveitirnar.