Íslendingar hafa lengi haft furðulega glýju gagnvart stórum alþjóðlegum fyrirtækjum sem hér starfa. En staðreyndin er sú að þetta eru auðhringar sem hugsa um það fyrst og fremst að hámarka arð hluthafa. Það er númer eitt, tvö og þrjú.
Áhuginn á að leggja eitthvað sérstakt af mörkum í landi eins og Íslandi er sáralítill, en hins vegar eru auðhringir oft hræddari við almenningsálitið þegar þeir starfa á Vesturlöndum en í ríkjum Þriðja heimsins. Þar er oft auðveldara að fela misferli og spjöll, fjölmiðlar eru lamaðir, embættis- og stjórnmálamenn eru mútuþægir.
Kastljós birti í kvöld sláandi upplýsingar um hvernig stór álfyrirtæki sem starfa hér komast hjá því að borga skatta. Þetta er eftir öðru í starfsemi slíkra fyrirtækja, svona reyna þau að hegða sér út um allan heim. Við höfum hins vegar viljað trúa því á Íslandi að við værum undanþegin svona brögðum – að við séum kannski svo lítil og sæt?
En samkvæmt Kastljósumfjölluninni er það ekki svo. Fyrirtæki eins og Alcoa beitir kaldrifjuðum bókhaldsaðferðum til að komast hjá því að greiða sem væri eðlilegt að fyrirtækið standi skil á. Það má vera að lagaumhverfið hér leyfi þetta, en þá hlýtur maður að grípa til gamla frasans og segja að þetta sé löglegt en siðlaust.
Íslendingar hafa lagt ansi mikið á sig til að þessi fyrirtæki geti starfað hér. Fórnað náttúruverðmætum, gengið í gegnum áralangar deilur, gefið mikinn afslátt á raforkuverði.
Í Bretlandi urðu mikil læti í vetur þegar kom í ljós að fyrirtæki eins og Starbucks, Google og Amazon höfðu beitt svipuðum brellum til að komast hjá því að greiða skatta þar í landi. Síðan þá hefur David Cameron haldið margar ræður um skattskil.
Ein ástæða reiðinnar var auðvitað sú að minni fyrirtæki sem starfa í heimalandinu geta ekki beitt svona skattabrellum. Þau sitja uppi með skattbyrðina!
Og það sama er í raun á ferðinni hér – stóru fyrirtækin eru að láta aðra borga fyrir sig.
Þetta skaðaði Starbucks mjög mikið, salan á kaffihúsum fyrirtækisins í Bretlandi dróst saman um tugi prósenta. Það endaði með því að Starbucks beinlínis bauðst til þess að greiða meiri skatta.
Þar var það almenningsálitið sem virkaði. Spurning hvernig það verður hér á landi?
Sjá frétt RÚV um málið.