Í kvöld komst ég að því að heimurinn fer batnandi.
Ég fór á leiksýningu í Hagaskóla, gamla gagnfræðaskólanum mínum. Krakkarnir þar hafa sett upp söngleikinn fræga, Konung ljónanna, með tilheyrandi dansi, söng og hljóðfæraslætti.
Þetta er ferlega skemmtileg sýning, það er sungið af innlifun, dansatriðin eru flott og fjölmenn hljómsveit, einungis skipuð nemendum, leikur undir af kunnáttu.
Það er frábært að verða vitni að því að börn og unglingar takist á við slíkt verkefni – og skili því með svona líka prýði. Maður fer út af sýningunni glaður í bragði.
Og hugsar, þegar maður horfir yfir svæðið, þar sem maður sjálfur eyddi allnokkrum æskuárum:
Okkur, jafnöldrum mínum, hefði aldrei dottið í hug að gera neitt svona metnaðarfullt á þessum aldri. Og við hefðum heldur ekki getað það!
Úr sýningu nemenda Hagaskóla á Konungi ljónanna. Krakkarnir leika sjálfir á hljóðfæri, semja dansa og sjá að talsverðu leyti um búninga og förðun. Fyrir utan að leika og syngja.