Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, verður í viðtali í Silfri Egils næsta sunnudag.
Bildt er líklega þekktasti stjórnmálamaður Norðurlandanna á alþjóðavettvangi. Hann var forsætisráðherra Svíþjóðar 1991 til 1994, á árunum þegar Svíar sömdu um aðild að Evrópusambandinu. Hann var mikið í heimsfréttunum þegar hann var sáttasemjari í Balkanstríðunum á tíunda áratugnum.
Bildt hefur verið utanríkisráðherra síðan 2006, í þeirri hægri stjórn sem hefur setið lengst í Svíþjóð í seinni tíð. Stjórnin hefur gert ýmsar breytingar, til dæmis í heilbrigðis- og skólamálum, frá því sem var á tíma Sósíaldemókrata. Svíþjóð hefur komið ríkja best út úr efnahagskreppunni.
Í viðtalinu ræðir Bildt um Evrópumál, málefni Norðurslóða og pólitíkina í Svíþjóð. Við nefnum einnig þá staðreynd að Bildt er ötull bloggari. Í bloggi frá því í gær fjallar hann einmitt um heimsókn sína til Íslands.
Carl Bildt klæðist íslenskri lopapeysu í viðtalinu í Silfrinu.