Síðast þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur tóku við völdum á Íslandi sátu þeir saman í ríkisstjórn í þrjú kjörtímabil, tólf ár.
Nú virðist fátt geta komið í veg fyrir að flokkarnir myndi næstu ríkisstjórn. Þeir eru samanlagt með 52 prósent fylgisins í nýrri Gallupkönnun, talan er hærri í skoðanakönnun Stöðvar 2.
Það er reyndar svo að samkvæmt báðum þessum skoðanakönnunum er Sjálfstæðisflokkurinn langt undir þvi fylgi sem hann telur ásættanlegt, hann tapar miðað við skoðanakannanir allt kjörtímabilið, bætir ekki miklu við sig frá síðustu kosningum þegar hann beið afhroð.
Framsókn heldur hins vegar áfram að styrkja sig, hún er augjóslega að taka fylgið frá Sjálfstæðisflokki – í könnun Stöðvar 2 er hún stærri en Sjálfstæðisflokkur. Sjálfstæðismenn eru í vanda vegna þessa, því harðar árásir á Framsóknarflokkinn gætu spillt fyrir stjórnarmyndun í vor.
Hallur Magnússon setur fram þá kenningu hér á Eyjunni að Framsókn stefni að því að vera eins og Venstre í dönskum stjórnmálum. Þrátt fyrir nafnið er Venstre hægri/miðjuflokkur sem tókst að verða stærsti flokkurinn á hægrivængnum í Danmörku, náði að yfirvinna Íhaldsflokkinn sem hafði lengstum verið í þeirri stöðu.
Það væri vissulega nýtt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ganga í gegnum tvennar kosningar í röð þar sem fylgið er undir þrjátíu prósentum. Hann er löngu búinn að missa Reykjavík, þar mun hann varla nokkurn tíma stjórna einn framar, eins og hann gerði á árum áður – og hugsanlega er hann að renna sitt skeið sem hið eina óskoraða stórveldi í landsmálapólitíkinni.
Um þetta er of snemmt að dæma – en þetta er eitt af því sem verður áhugavert við næstu kosningar.
Sjálfstæðisflokkur og Framsókn eru með 19 þingmenn hvor í könnun Gallups. Það er öruggur þingmeirihluti, 38 þingmenn.
Fylgi stjórnarflokkanna er í algjöru lágmarki, Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir munu nær örugglega leiða stjórnarandstöðu á næsta þingi, en nýju framboðin eru á tvist og bast – fyrir utan Bjarta framtíð. Fylgi hennar er þó líka að dala, það er líkt og vanti slagkraftinn á þeim bæ.
Björt framtíð nær þó einhverjum þingmönnum, líklegast er að önnur ný framboð geri það ekki nema eitthvað mikið breytist. Þau eru samanlagt með rúmlega 10 prósent í báðum könnunum, Píratar hafa 3,8 prósent hjá Gallup. Ég hef áður sagt að þeir gætu verið einna líklegastir til að rjúfa fimm prósenta múrinn, það er vegna þess að markhópur þeirra er skýrari en hinna, margt ungt fólk hefur áhuga á stefnumálum þeirra og Píratar eiga að kunna að nota netið.