fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024
Eyjan

Ekki í nöp við stjórnarskrá – en leiðin að henni er orðin mjög torfær

Egill Helgason
Sunnudaginn 10. mars 2013 21:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mér þykir nokkuð langt gengið hjá Valgerði Bjarnadóttur að halda því fram að mér sé í nöp við stjórnarskrárferlið. Þvert á móti finnst mér margt afar merkilegt í því – það væri mikil synd ef allri vinnunni sem hefur farið í stjórnarskrá síðustu árin væri kastað fyrir róða. Og það væri lágkúrulegt að ætla að láta eins hún hefði ekki átt sér stað – og þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október hefði aldrei verið haldin. Í henni kom fram eindreginn vilji í auðlindamálum, gagnvart beinu lýðræði og stuðningur við að breyta stjórnarskrá.

En kannski er þetta dæmi um þegar reynt er að skjóta sendiboða – þá sem segja hluti upphátt sem eiginlega liggja í augum uppi? Minnir mig svolítið á ástandið fyrir tæpu ári þegar ég leyfði mér að spá, einna fyrstur manna, að Ólafur Ragnar myndi vinna forsetakosningarnar með yfirburðum. Þá urðu margir stuðningsmenn eins mótframbjóðandans mjög reiðir. En ég er eingöngu að meta hina pólitísku stöðu.

Ég hef talið að það sé langt síðan stjórnarskrárferlið fór út af sporinu og að ljóst hafi verið um nokkurt skeið að ný stjórnarskrá myndi ekki líta dagsins ljós á þessu kjörtímabili.

Fyrir þessu eru nokkrar ástæður:

Úrskurður Hæstaréttar þar sem kosningin til stjórnlagaþings var dæmd ógild. Þetta tafði málið mikið, afleiðingin – að Alþingi ákvað að skipa stjórnlagaráð vakti upp efasemdir um lögmæti þessa alls og gaf andstæðingum stjórnarskrárferlisins mjög sterk vopn í hendurnar. Hugsanlega er þetta vendipunkturinn.

Verkstjórn ríkisstjórnarinnar sem dró mjög á langinn að koma málinu á rekspöl og ýta eftir því – og virkaði alls ekki samhent heldur. Og kannski var stjórnin bara of upptekin við annað? Aftur gaf þetta andstöðuöflum aukinn kraft.

Þjóðaratkvæðagreiðsla sem telst vera ráðgefandi en ekki bindandi, eins og sagði í þingsályktun um hana. Þetta þýðir einfaldlega að þingið átti eftir að fjalla um ýmis atriði í stjórnarskránni og breyta þeim frá því sem voru greidd atkvæði um 20. október – það hefur ekki gegn  betur en að mikil ósátt ríkir um málið í þinginu, ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur líka innan flokka.

Þetta er einfaldlega staða málsins nú þegar 48 dagar eru eftir til kosninga.

Ákafir stjórnarskrársinnar vilja að gengið verði til atkvæða í þinginu um stjórnarskrártillögurnar eins og þær líta út núna, eftir breytingar sem hafa orðið í meðförum þingsins. Það er hugsanlegt að þær verði samþykktar, en það yrði með naumum meirihluta.

Þá kemur til kasta nýs þing sem verður kjörið 27. apríl. Það verður líklega allt öðruvísi samansett en þingið sem situr núna.

Þetta er áhugaverð þróun frá sjónarhóli stjórnmálaskýrenda, en líklegt er að hún leiði til nokkurs ófriðar.

Ég hef rætt við marga erlenda sérfræðinga og fjölmiðlamenn sem hafa sýnt stjórnarskrárferlinu áhuga og jafnvel talið það til fyrirmyndar. Eitt hafa þeir þó átt sammerkt, fæstir hafa gert sér grein fyrir flokkadráttunum og ósamlyndinu sem ríkir á Íslandi og er náttúrlega grundvallarskýringin á því að við fáum varla nýja stjórnarskrá. Nokkrir af þessum útlendingum hafa þó lagt það á sig að koma hingað og dvelja nokkra hríð og má þá stundum heyra þá segja –

„Já, ég skil.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmundur vill íslenskan Elon Musk til að hagræða í ríkisrekstri – Nefnir tvo athafnamenn sem kæmu til greina

Sigmundur vill íslenskan Elon Musk til að hagræða í ríkisrekstri – Nefnir tvo athafnamenn sem kæmu til greina
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Miðjustjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Framsóknarflokks

Orðið á götunni: Miðjustjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Framsóknarflokks
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðlaugur gerir grín að því hvað Miðflokksmenn séu gleymnir – Sigmundur gagnrýni nú í raun sín eigin verk

Guðlaugur gerir grín að því hvað Miðflokksmenn séu gleymnir – Sigmundur gagnrýni nú í raun sín eigin verk
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið

Birgitta segir vont að Píratar hafi orðið að „diet Samfylkingu“ en nú sé þó farið að glitta aftur í pönkið
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sjúkratryggingar auglýsa eftir rekstraraðilum að hjúkrunarheimilum

Sjúkratryggingar auglýsa eftir rekstraraðilum að hjúkrunarheimilum