fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024
Eyjan

Óskarinn í gærkvöldi

Egill Helgason
Mánudaginn 25. febrúar 2013 11:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég horfði á Óskarsverðlaunin eins og þau lögðu sig í nótt – sleppti reyndar rauða dreglinum mestanpart. Blaðrið um kjólana er yfirgengilegt og sleikjuskapurinn sem því fylgir.

Það var ýmislegt athyglisvert þarna.

Tarantino vann verðlaun fyrir besta handritið. Hann er að öðrum ólöstuðum lang frumlegasti listamaðurinn af öllu þessu liði, gerir nákvæmlega það sem honum sýnist, skrifar handrit sjálfur og leikstýrir. Vitnar í gamlar myndir sem fáir hafa séð. Leyfir sér að hafa löng og skrítin samtöl.

Það er ágætt að bera hann saman við Spielberg sem eitt sinn var flottur kvikmyndagerðarmaður en hefur breyst í verksmiðju.

Lincoln ber öll merki vandaðrar verksmiðjuframleiðslu. Daniel Day-Lewis skilar sínu hlutverki reyndar mjög vel, hann er í þeirri stöðu að þurfa ekki annað en að setja á sig falskar augabrúnir til að fá Óskarsverðlaun. En manni finnst að svona gæti Lincoln hafa verið – eins langt og það nær.

Annar stórleikari fékk verðlaun, Austurríkismaðurinn Christoph Waltz. Það er langt síðan ég fór að veita honum eftirtekt, man sérstaklega eftir honum í mynd sem hét Konungur hinstu daga. Þar lék hann foringja skammlífs ríkis anabaptista í Münster á 16. öld, mann að nafni Jan Leyden, hann lýsti yfir að nú væri komin Ný Jerúsalem. Þessi trúarhreyfing tók upp hreinan kommúnisma og stundaði meira að segja frjálst kynlíf. Á endanum voru leiðtogar uppreisnarinnar handteknir og pyntaðir og lokaðir inni í búrum sem enn hanga utan á kirkjuvegg í Münster.

En Waltz var frábær í þessari mynd – einhvern veginn situr hún í mér. Þetta er gáfaður og fjölmenntaður leikari. Þess má svo geta að hann er Urbancic í móðurætt sína og mun eiga ættingja á Íslandi sem heita þessu nafni.

Í Amour, sem fékk verðlaun sem besta erlenda myndin, er á ferðinni einvalalið úr heimi listrænna evrópskra mynda, sökum leikaravalsins vísar hún dálítið aftur í blómaskeið listrænnar kvikmyndagerðar, og raunar er leikstjórinn, Michael Haneke, helsti fulltrúi þessa skóla. Þarna eru leikararnir Jean-Louis Trintignant og Emmanuelle Riva. Ég man best eftir henni úr Hiroshima Mon Amour sem var gerð 1959, árið sem ég fæddist, en Trintignant var ógnarflottur í Manni og konu eftir Lelouch, Nótt minni með Maud eftir Rohmer og Il Conformista eftir Bertolucci.

Líf Pí vann nokkur verðlaun, meðal annars fyrir bestu leikstjórn, sjónrænt er hún mikið afrek en þó er eitthvað sálarlaust við myndina. Ang Lee er mjög fínn fagmaður sem leikstjóri – en maður saknar sterkari höfundareinkenna.

Og svo var það Argo sem vann verðlaun fyrir bestu myndina. Ég veit ekki hvort það var verðskuldað. Þetta er ágæt mynd, en konan mín mundi ekki einu sinni eftir að hafa séð hana í nótt. Þó eru ekki nema fáir mánuðir síðan við horfðum á hana í bíó. En það eru flottar senur í henni, eins og til dæmis þegar írönsk börn eru að líma sama skjöl sem höfðu verið sett í pappírstætara í bandaríska sendiráðinu – þetta er sannsögulegt og þótti ótrúlegt á tíma gíslamálsins sem myndin fjallar um.

Leikstjórinn Ben Affleck er afar viðkunnanlegur maður og virkar einlægur. Hann er góður fulltrúi kvikmyndanna. Og hann hélt líka ágæta ræðu þar sem hann sagði að lykillinn að velgengni í kvikmyndum væri að vinna meira en maður héldi að maður gæti – og velta sér ekki upp úr beiskju og mótlæti.

„You have to work harder than you think you possibly can — it’s hard, but you can’t hold grudges. And it doesn’t matter how you get knocked down in life. All that matters is you’ve got to get up.“

christoph-waltz-16x9

Stórleikarinn austurríski Christoph Waltz tekur við Óskarsverðlaunum í nótt. Hann mun eiga frændfólk á Íslandi – og reyndar ætti að vera von á honum hingað til að leika Gorbatsjov í mynd um leiðtogafundinn 1986.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar með meiri kaupmátt en við!

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar með meiri kaupmátt en við!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ný spá um hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út

Ný spá um hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Ræður risastóri hópurinn – LAUSAFYLGIÐ – úrslitum?

Orðið á götunni: Ræður risastóri hópurinn – LAUSAFYLGIÐ – úrslitum?