Þór Saari leggur fram vantraust á ríkisstjórnarinnar vegna stjórnarskrármálsins.
Frekar þann versta en þann næstbesta, stendur í frægri bók. Þannig gæti Þór verið að hugsa.
Ef vantraustið yrði samþykkt myndi væntanlega taka við starfsstjórn sem myndi ekkert gera með stjórnarskrármálið – hlutverk hennar væri ekki annað en að halda í horfinu fram að kosningum.
Og næst kæmi líklega ríkisstjórn sem væri á móti stjórnarskrárbreytingum eða vildi hafa þær í algjöru lágmarki.
En það er svo spurning hvað restin af stjórnarandstöðunni gerir í þessu máli. Hún hefur verið á móti stjórnarskránni – varla fer hún að samþykkja vantraust vegna vanefnda við að koma henni í gegn?
Það væri svosem ágætt fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn að geta sagt að vinstri stjórnin hafi fallið. En svo getur líka verið gott fyrir þessa flokka að hafa hin óvinsælu Jóhönnu og Steingrím við stjórnvölinn alveg fram að kosningum, fremur eitthvað annað fólk sem vekja ekki jafn heita andúð meðal kjósenda.
Sjálfur leggur Þór Saari til starfsstjórn allra flokka – líklega er enginn sérstakur hljómgrunnur fyrir því.