Þessi mynd birtist í DV í gær. Hún sýnir stjórn VÍS árið 2007, en í henni voru nokkrir aðalleikarar í bankahruninu – og stjórnarmenn í hinu dularfulla félagi Gift.
Nú er skýrt frá því að 57 milljarðar hafi verið afskrifaðir af Gift, en félagið var upphaflega stofnað til að fara með hluti í eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga, en þá stóð til að greiða þá út til 50 þúsund tryggingataka. Það var ekki gert. Þegar Gift var stofnað námu eignir félagsins 30 milljörðum króna, en nú er semsagt búið að ganga frá nauðasamingum með áðurnefndum afskriftum. Stjórnendur Giftar voru að höndla með peninga sem þeir áttu ekki.
Myndin er reyndar söguleg vegna þess að hún sýnir tengsl. Gift tengdist Kaupþingi og Exista og var notað til að gíra upp hlutabréfaverð bankans og hins stóra eignarhaldsfélags – á myndinni líka að finna toppana í þeim félögum.
Það vekur svo athygli að umsjónarmaður með nauðasamningum Giftar er sami lögmaður og sá um að stofna félagið árið 2007 og einn helsti samverkamaður stjórnenda þess.