Það er gleðidagur að Icesave-málið skuli vera úr sögunni – eða það sýnist manni. Íslendingar hrósa sigri í þessari langvinnu, slítandi og leiðinlegu deilu.
En menn eru náttúrlega misjafnlega miklir sigurvegarar á þessum degi.
Ólafur Ragnar Grímsson er kannski stærsti sigurvegarinn. Hann sendi Icesave í tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, „stóð með þjóðinni“ eins og var sagt. Ólafur Ragnar var endurkjörinn sem forseti út á afstöðu sína í Icesave – dagurinn í dag er kannski hápunkturinn á pólitískum ferli hans. Tvívegis var Alþingi búið að samþykkja Icesave-samninga, tvívegis biðu menn með öndina í hálsinum eftir því að Ólafur skrifaði undir. Í bæði skiptin sagði hann nei.
Hreyfingarnar sem nefndu sig InDefence og Advice geta líka hrósað sigri. Þær voru óþreytandi við að vinna í málinu og halda því fram að málstaður Íslendinga væri sterkur. Þetta sýnir hvaða árangri grasrótarhreyfingar geta náð.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon geta varla talist sigurvegarar. Það hefur sjálfsagt verið í góðri trú að þau gerðu samninga við Breta og Hollendinga, en þeir voru felldir í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Niðurstaðan núna er að Íslendingar þurftu ekki að ganga að kröfunum. Daprasti punkturinn í ferlinu er kannski þegar þau bæði hunsuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Pólitískt þrengir þessi niðurstaða enn hag þeirra beggja.
Svo er þarna mikill sigur fyrir beint lýðræði. Þjóðin fékk að ráða sjálf hvernig farið væri með stórt og alvarlegt mál. Stjórnmálaflokkarnir voru að stórum hluta á öðru máli en þjóðin. En skoðun þorra kjósenda var mjög eindregin – og hún er staðfest í dómnum sem féll fyrr í dag.
Þetta getur ekki annað en gefið kröfum um meira beint lýðræði byr undir báða vængi.