Sá skarpi samfélagsrýnir, Marinó G. Njálsson, rifjar upp þriggja ára gamla bloggfærslu á vef sínum. Hann vekur athygli á henni í framhaldi af fréttum um Skipti, móðurfélag Símans, og endalausa fjárhagsörðugleika þess. Í aðfaraorðum að gömlu bloggfærslunni – sem á svo vel við enn – segir Marinó:
„Fyrir nánast þremur árum birti ég færsluna sem hér er endurbirt í tilefni væntanlegs uppgjörs vegna skulda Skipta, móðurfélags Símans. Þeir sem rýna í fréttir um það mál, hafa komið auga á að þegar Exista keypti tæplega helmingshlut í Símanum af ríkinu, þá virðist sem Exista hafi ekki lagt krónu í kaupin. Allt var tekið að láni. Um þetta fjallaði einmitt færslan mín hér fyrir þremur árum, þ.e. ótrúlegt auraleysi meintra auðmanna. Þeir skömmtuðu sér háar upphæðir í arð frá þeim félögum sem þeim tókst að komast yfir, en áhætta þeirra við kaupin voru engin, þar sem búin voru til leppfyrirtæki með lágmarksfjárframlagi og síðan tekin lán fyrir öllum pakkanum. Tekið skal fram að þegar ég skrifaði færsluna, þá var ekki allt komið fram sem núna er vitað og var margt byggt á ágiskunum og innsæi. Því miður þá hafði ég ekki rangt fyrir mér í einu einasta tilviki.“
Lesið meira hér á síðu Marinós.