Það er kannski dálítið bratt hjá mbl.is að kalla það „hryðjuverk“ þegar íbúar í Mývatnssveit sprengdu stíflu sem var verið að reisa við Mývatnsósa í ágúst 1970.
Vissulega gerðu þeir þetta í óþökk yfirvalda, en nú myndi varla nokkur maður mæla fyrir Laxárvirkjun – það mun koma fram í nýrri kvikmynd um Laxárdeiluna að enginn þeirra sem stóðu að verknaðinum hafi séð eftir honum.
Var þetta þá hryðjuverk?
Markmiðið var mjög skýrt – að bjarga byggð og náttúru frá því að vera sökkt undir vatn til að framleiða rafmagn. Laxárdalur hefði lagst í eyði og merkilegur laxastofn skaðast mikið. Það slasaðist enginn í sprengingunni, en hún hafði gríðarleg táknræn áhrif.
Var það þá kannski sjálfsvörn – gegn yfirgangi og skemmdaröflum? En þetta fer kannski eftir því hvaða skilning við leggjum í orðið hryðjuverk – sem er íslenskun á hugtakinu terror.
Það er stundum sagt að atburðirinn hafi markað nýja tíma í náttúruvernd á Íslandi. Á endanum höfðu heimamenn sigur, samstaða þeirra var órofin, og yfirvöld beygðu sig. Það er svo merkilegt að hvað þögnin hélt – Mývetningar voru ekkert að blaðra um það hverjir hefðu staðið að sprengingunni sjálfri, en það mun vera upplýst í myndinni.