Tímarnir breytast – stundum segir maður sem betur fer.
Eitt sinn þótti nær sjálfsagt að gamli bærinn í Reykjavík yrði rifinn til grunna og nýr bær byggður á rústum hans. Það nær almenn samstaða um þetta – timburhúsin voru kölluð fúahjallar og eldgildrur. Bæði kapítalistar og kommar vildu rífa og byggja nýtt. Kapítalistar vildu gera borgirnar hagkvæmari og opnari fyrir bílum, hjá kommum lifðu minningar um óheilsusamlegt húsnæði verkafólks.
Hilmar Þór Björnsson arkitekt heldur úti frábærri síðu um arkitektúr og skipulag hér á Eyjunni. Hann birtir myndir af hugmyndum um miðbæinn í Reykjavík sem settar voru fram af arkitektum 1963. Það er engin ástæða til að ætla að þessir arkitektar hafi verið sérstakir niðurrifsmenn eða skemmdarvargar umfram það sem þá tíðkaðist, nei, þetta var einfaldlega tíðarandinn. Og svo var auðvitað á fleiri stöðum en á Íslandi.
En á þessari mynd er búið að fjarlægja alla byggðina í Kvosinni og Grjótaþorpinu, nema Alþingishúsið og Dómkirkjuna, og uppeftir Laugavegi. Í staðinn eru komin stjórhýsi og turnar. Menntaskólinn í Reykjavík er horfinn, Miðbæjarskólinn og auðvitað Bernhöftstorfan – það var reyndar ekki fyrr en steint á áttunda áratugnum að náðist sátt um að rífa hana ekki.
Ég er á þeim aldri að ég man þegar viðhorfsbreytingin fór að verða. Til dæmis þegar vinur minn Gérard Lemarquis stillti sér upp fyrir framan gröfu sem var að rífa eitt húsið í Grjótaþorpinu. Það voru sumpart útlendingar sem hingað komu sem leiddu okkur fyrir sjónir hvað væru mikil verðmæti í hinni einstöku byggð á þessum litla bletti í hinni norðlægu borg.
En þið getið fræðst meira um þetta á síðunni hans Hilmars. Björn Jón Björnsson hefur líka fjallað um þetta á síðunni Lifandi Laugavegur.