Ég, líkt og fleiri Íslendingar, var alinn upp við að Vilhjálmur Stefánsson væri mikilmenni. Það var meira að segja lagt til á sínum tíma að hann yrði gerður að forseta á Ísland.
Nafni hans er enn haldið á lofti á Íslandi – hér starfar til dæmis stofnun í heimskautafræðum sem er kennd við hann.
En ýmislegt misjafnt hefur verið ritað um Vilhjálm hin síðari ár. Hann reyndist samferðamönnum sínum í heimskautaferðum illa, frægast er að hann skildi þá eftir í ferð á skipinu Karluk. Fjöldi þeirra dó eftir mikla hrakninga.
Haraldur Sigurðsson, hinn fjölmenntaði jarðfræðingur, forstöðumaður Eldfjallasafnsins í Stykkishólmi og fyrrverandi prófessor í Bandaríkjunum, gerir grein fyrir þessari hlið á Vilhjálmi í grein á vef sínum. Haraldur segir að það sem hafi verið skrifað um ferðir Vilhjálms sé ekki alltaf fallegur lestur, hann sé frægur að endemum:
„Hver er nú arfleifð Vilhjálms? Eftir hörmungarnar á Karluk og á Wrangeleyju varð Vilhjálmur strax mjög umdeildur. Einn nefndi hann “an explorer-cum-swindler”. Norski landkönnuðurinn Roald Amundsen hafði ekki mikið álit á honum og kallaði Vilhjálm “the greatest humbug alive”. Einnig var gert grín af fullyrðingu hans að hann hefði uppgötvað “ljóshærðu eskimóana”. En á Íslandi er minningu Vilhjálms hampað með því að setja á laggirnar árið 1998 rannsóknastofnun sem ber hans nafn, af því að hann var frægur. Rannsóknir síðari tíma sýna nú að hann er frægur að endemum.“
Mynd af Vilhjálmi Stefánssyni í norðurslóðaferð.